Saturday, December 8, 2012

KL til Vietnam

Jæja, þá er maður kominn til Vietnam, Ho Chi Minh City eftir örlítið vesen. Við eyddum 7 dögum í Kuala Lumpur og þar skoðuðum við moll og fleiri moll og annað moll.  Sem betur fer var það ekki það eina sem við gerðum heldur fórum við til að mynda fyrsta morgunin í göngutúr að Petronas Towers sem eru hæstu tvíburaturnar heims, en þeir eru 88 hæðir hvor fyrir sig með brú sem tengir þá í milli á 42 hæð.  Við fórum upp í brúna og á útsýnishæðina sem er sú áttugasta og sjötta :D  Þrátt fyrir að þetta séu aðeins 50% af þeim hæðum sem boðið er upp á í Burj Khalifa í Dubai hjá henni Finnu frænku þá var þetta alveg skít nógu hátt og þaðan sá maður borgina, upplýsta í myrkrinu.  Þeir glöggu lesendur sem tóku eftir því að í upphafi var talað um göngutúr að morgni, en borgina lýsta upp í myrkri að kvöldi eiga hrós skilið, en við biðum í 7 tíma eftir því að komast upp, allir miðar voru uppseldir fyrrir part dags.  Þessum tíma eyddum við í þeirri glæsilegu verslunarmiðstöð sem neðri hæðirnar bjóða upp á, moll eflaust á stærð við 4 kringlur eða eitthvað svoleiðis.  Þar fundum við búðir með öllum hugsanlegum merkjavörum og starbucks og The coffee bean & Tea leaf á hverju horni.  The coffee Bean & Tea leaf fær vinninginn frá mér, kaffið þeirra var einfaldlega betra en hjá Starbucks, meira að segja jólablandan hjá Starbucks ( reyndar uppáhelling).  

Það verður að segjast að innkaupaleiðangrar eru alveg mögulegir í Kuala Lumpur.  Í fimm mínútna göngufæri frá Petronas Tower mollinu er annað risa stórt moll er Pavilion heitir, og viti menn, það eru 3 önnur í götunni, eða fjögur, ég hreinlega man það ekki.  

Verslunnarmiðstöðvar voru sem betur fer ekki alveg það eina sem við skoðuðum í Kuala Lumpur, þó svo að það hafi eflaust tekið meirihluta tímans, ( það voru svo mikil viðbrigði að komast í búðir eftir 1 mánuð í Tælandi, loksins alvöru búðir, hehe)  en við fórum einnig í Aquaria KLCC en það er alveg æðislegt safn eða hvað skal kalla það.  Það byrjar á svoítilli skordýra og skriðdýra kynningu, Tarantulur, eðlur, snákar, sporðdrekar og uppstoppuð skordýr, og leiðir svo inn í þvílíkt flottan hluta með sædýrum.  allskonar fisktegundir, stórar sem risastórar, smáar sem risasmár, þar á meðal Piranha fiskar, Krókódílafiskar, allskonar risafiskar, skjaldbökur, hákarlar, skötur og margt fleira.  Það skemmtilegasta var rennibandið sem leiddi mann gegnum "göng" þar sem hliðar og loft var úr gleri gegn um ógnarstórt fiskabúr þar sem hákarlarnir, skjaldbökurnar og sköturnar, smáfiskar og stórir fiskar og aðrir fiskar og fleiri fiskar lifðu saman.  

Við fórum einnig í safn sem heitir National History Museum sem kenndi okkur allt um Malasíu frá því risaeðlurnar lifðu til dagsins í dag.  Þar var margt merkilegt að sjá, landnámsfundir, beinagrindur, gömul stríðsvopn, fyrstu gjaldmiðlarnir sem voru skordýrastittur úr einhverri málmtegund sem svo þróuðust yfir í það sem við þekkjum, peningar.
Daginn sem við sóttum safnið átti að vera aðal dagurinn, en þá ætluðum við til Cameron Highlands sem er víst hrikalega fallegt landsvæði þar sem má finna jarðaberjaræktun, te akra og alla mögulega ávexti sem vaxa þar, ásamt blómum og yndisfögru landslagi, hátt fyrir ofan sjávarmál, en auðvitað klikkaði það.  Ferðaþjónustan sem ætlaði að sækja okkur gerði það ekki og bar það fyrir sig að við höfðum ekki klárað að ganga frá bókuninni, sem fram fór á síðu þeirra með því að svara því e-maili sem þeir sendu okkur.  En í því stóð litlum stöfum neðst á síðunni, Please reply ASAP, en við tókum auðvitað ekki eftir því og þess vegna var sökin öll okkar, en ekki vegna lélegs fyrirkomulags þessarar blessuðu þjónustu. Ferðin átti að taka tólf tíma og vera hrikalega skemmtileg :/
                                                                              
Mynd 1, einhver undirtegund Catfish.  Mynd 2, Handskrifaður Kóran

Við lentum í Vietnam í dag, degi of seint vegna annarra mistaka, en við misstum af vélinni frá Kuala Lumpur því okkur var eki hleypt inn í vélina, okkur vantaði útprentað blað frá Vietnam með samþykki Víetnamska sendiráðsins um að við mættum sækja um Visa on arrival, sem fer fram á flugvellinum hér í Vietnam.  Hvers vegna heitir þetta Visa on arrival ef allt nema stimpillinn fer fram á netinu.  Jæja, hér erum við, 40.000 krónum fátækari því við þurftum að borga farmiðann upp á nýtt nánast og borga fyrir rándýrt hótel við flugvöllinn.  

Okkur þykir það litla sem við höfum séð af Vietnam vera svolítið frábrugðið því sem við kynntumst í Tælandi.  Hér ganga konur um og selja drasl í tveimur stórum bastkörfum sem þær bera á bambuspriki eða einhverju slíku sem hvílir á öxlunum, og ganga um með svona hatt eins og maður þekkir úr sjónvarpinu,sem er hringlaga að neðan og kemur svo saman í toppinn, eins og skopparakringla á hvolfi, ef svo mætti segja, bundið undir höku.  Gjaldmiðillinn er einnig einn risastór brandari, við borguðum til að mynda 900,000,- Vietnam Dong fyrir leigubílinn frá flugvellinum upp á hótel, hálftíma 45 mínútna akstur eitthvað svoleiðis.  Þúsund krónur íslenskar eru eitthvað í kring um 164,000,- Dong, haha, og eitt pund gefa rúm 33 þúsund Dong, svo við tókum 4 milljónir út úr hraðbankanum, en það eru einungis um 25 þúsund krónur.  Nú liggjum við í harðasta rúmi sem ég hef nokkurtíma lagst í, en það mætti halda að dýnan sé búin til úr dagblöðum sem brotin eru saman, ekki krumpuð, krumpur væri góður draumur, og bíðum eftir morgundeginum, en þá tekur við 6-9 tíma lestarferð til Nha Trang, sem liggur við ströndina.  Þar á víst að vera æðislegt að kafa, svo hver veit nema maður slái sér upp og fari að kafa aftur, skreppi yfir í annan heim í 45 mínútur eða svo.  

Veðrið er samt við sig, rúmar þrjátíu gráður myndi ég halda en þó aðeins minni raki höldum við en í Tælandi og Malasíu sérstaklega, manni finnst maður ekki vera eins hrikalega sveittur alltaf hreint hérna og klístraður.  Jæja, höfum þetta ekki lengra að sinni, heyrumst vonandi sem fyrst aftur svo að færslurnar verði ekki svona langar.  Þið sem nenntuð að fylgja mér alla leið hingað niður, eigið góðan dag og góða nótt frá Vietnam.

Gunnar O.

Sunday, December 2, 2012

Kuala Lumpur, 2.des

Seint skrifa sumir en skrifa þó! síðast þegar þið heyrðuð í okkur  vorum við stödd i Prachuap, þaðan fórum við til Chumphon, Chumporn, Cumporn eða jafnvel Champion, en í Tælandi er ekki nokkur sála sammála um stafsetningu, það vantar kannski örlítið upp á fræðsluna.  Við gistum þar yfir eina nótt en þaðan fór ferjan góða yfir á Skjaldbökueyjuna Koh tao, Koh Tao þýðir það á Tælensku, en einu skjaldbökurnar sem við sáum voru útiljósin á hótelinu okkar.  Við dvöldum á huggulegu hóteli með einkaströnd og sundlaug, veitingastað og jafnvel einum eða tveimur maurum.  Sólrún var svo óheppin að maurunum þótti hún augnakonfekt eitt og biðu eftir henni eins og börnin bíða nú eftir jólunum, fæturnar fengu að finna fyrir því og mátti halda að hún hefði fengið svæðishlaupabólu, henni til ómældrar gleði og ánægju.  Við nutum þess nú reyndar ekki sem hótelið hafði upp á að bjóða vegna þess að dagarnir fóru að mestu leyti í að læra köfun.  Þeir sem eru orðnir þreyttir á neikvæðum fréttum af vaxandi verðbólgu og því hversu vel gengur hjá Iceland feðgum, ættu að rífasig upp á rassgatinu og læra að kafa, neðan sjávar gleymir maður öllum áhyggjum því þessi fagra veröld sem við þekkjum svo lítið er eins og önnur pláneta, og ekki af síðri kantinum heldur. Allt þetta lìf sem þrífst í vatninu er ólýsanlegt og er allt önnur upplifun að slaka sjálfur á þyngdarlaus undir vatninu og leyfa fiskunum að leika lystir sínar og dást að því en að sjá það í sjónvarpi. Nú erum við komin með leyfi til þess að kafa um allan heim niður að átjan metra dýpi og hver veit hvar við köfum næst. Frá Koh Tao lá leiðin örlítið sunnar til Koh Phangan þar sem við fengum heldur betur að kynnast rigningunni, en það stytti nánast ekki upp í heila 5 daga samfellt, takk fyrir góðan daginn og réttu mér sinnepið, við gerðum semsagt fátt annað en að éta og éta og svo fengum við okkur stundum að éta þess í milli. Það er bókstaflegs ekkert að gera á svona stöðum í rigningu. En við hittum Andreu dóttur Freyju hans Gumma þar og djömmuðum með henni á Full moon party, sem var 28 nóvember, en það er strandparty, svona heldur af stærri gerðinni, einhver þúsund kvikyndi hver öðrum vitlausari, þessi bakpokalýður, iss, æji þið vitið hvað ég meina. Nú erum við komin suður til Kuala Lumpur, hingað flugum við og það er óhætt að segja að þetta sé svolítið öðruvísi en tæland, hér er menningi líkari því sem við þekkjum þrátt fyrir áberandi meirihluta múslima. Hér má finna allt milli himins og jarðar, verslunarmiðstöðvar, risa byggingar, risa risa stórar byggingar og svaka turna. Deginum í dag eyddum við í Petronas Towers, en það eru tvíburaturnar á 88 hæðum og þá tengir saman brú á 42 hæð, 58 metra löng á tveimur hæðum, (Skybridge). Við fórum upp á 86 hæð, eða eins hátt og leyft er og sáum ljósum prýdda stórborgina frá nýju sjónarhorni, sjónarhorni fuglsins. Ì turnunum er að finna moll á 6 hæðum og bíóhús með 12 sölum, við fórum að sjá Skyfall í sal níu. Nú er klukkan að verða þrjú að nóttu til hjá okkur og tími til komin að hvíla sig, en á morgum ætlum við kannski í sædýrasafn og eitthvað fleyra skemmtilegt ef veður leyfir. Góða nótt frá Malasíu, heyrumst síðar.

Saturday, November 10, 2012

Prachuap Khiri Khan

Það er löngu kominn tími á einhverja uppfærslu hér, átta dagar síðan seinast. Við erum stödd í Prachuap Khiri Khan, mjög rólegum bæ hér í suður Tælandi og gistum a mjög agætu hoteli í 5 nætur. Þegar við komum hingað fyrst í mini van sem rúmar 12 manns var steikjandi hiti, við stigum út úr loftkældri druslunni, sem reyndar var yfirfull af Liverpool merkjum og límmiðum ágætum og vissum ekki almennilega hvert við áttum að halda en gps snilldin i Samsung galaxy kom til bjargar. Við gengum með töskurnar í rúman hálftíma að minnsta kosti yfir heitasta tíma dags, svoleiðis að þegar inn á hotelið var komið var starfsfólkinu eflaust brugðið, hvurslags andskotan bakpokalýður þetta sé og hvort það sé ekki til snyrtilegt í okkar orðabók. Þegar við höfðum loks sturtað okkur og þurrkað mesta svitann af okkur tók næsta langa gönguferð við í leit að vespum til leigu, þær fundum við eftir að hafa þrætt allan bæinn og hvorki maður né api vissi hvar svona tæki voru til leigu og eitt nýtt hjól fengum við og aðra druslu sem var að hristast í sundur, og borguðum 1350 baht fyrir ( × 4,3 = ISK eða e=mc2 eins og Einstein nokkur vinur minn sagði forðum). Svo lögðum við í hann beint heim á hotel og sturtuðum okkur aftur. Við þekkjum það eflaust öll að leita óþarflega langt yfir skammt og viti menn, þegar við gengum yfir á næsta stað sem tekur innan við hálfa mínútu komumst við að þvi að þar var vespa til leigu, ennþa flottari en okkar og fyrir minni pening. Classic. Þar kynntum við svo yndislegu fólki, manni frá Skotlandi og skruggu hans Tælenskri og fleira ágætis fólki, en þau hafa verið svo yndæl að sýna okkur helling af áhugaverðum stöðum, m.a. ananas akra þar sem við keyptum ananas beint frá bónda og fengum nýkreistan djús af Queen tegundinni, en það eru margar tegundir til af ananas og þið hafið aldrei fengið svona dýrðar ávöxt í búð á Ìslandi, því get ég lofað. Fyrir þá sem eigi vita betur þá vex ananas ekki á trjágreinum heldur upp frá jörðinni, klassískur misskilningur virðist vera. Þaðan héldum við að fossi í þjóðgarði 30 km sunnar og auðvitað borguðum við þrjú, vesturlandabúarnir 120 baht fyrir inngöngu, en Ona kærasta skotans, sem heitir Cameron borgaði auðvitað bara 20, aðeins örlítill munur hér á ferð, rán um hábjartan dag. Ì vatninu við fossinn lékum við okkur heillengi og snæddum grillaðan kjúkling og ferskan ananas á eftir. Ì vatninu var svo hellingur af fiski sem nartaði af og til í lappir og tær en það var bara gaman ( ca 50 fiskar í kringum mann allan tímann). Að kvöldi sama dags ( i gær föstud.) kíktum við svo á skemmtistað neðar í götunni við hótelið og ég sem hélt að hinir umræddu tælensku LadyBoys væru bara einstaka hræða á stangli voru í meirihluta, og einn þeirra hefur vigtað um 150 kg og var í pu7ngstuttum stuttbuxum og mqgabol og dansaði svo yndislega fyrir okkur meðð rasskinnarnar danglandi niður á hæla með sílíkonið hinummegin eins og tveir þokkalegir ananasar, það er bara eitthvað svo undarlegt við þetta svo vægt sé til orða tekið. Menn með sílíkon, lillan límdan milli lappanna svo hann ekki sjáist, æi þið vitið hvað ég meina, það fer hrollur um mann. Á milli stríða höfum við svo haldið okkur á gullfallegri strönd við heitann sjóinn keð hrikalega fallegu útsýni, fjöll og eyjur þakin trjám, með tærnar upp í loft.
Nú bíðum við eftir að rútan komi uppi við aðalbrautina sem kemur okkur vonandi heilum og höldnum til Chumphon, því miðað við síðustu minivan ferð er langt í næstu, sveiflandi frá hægri til vinstri, út og suður á yfir 120 km hraða og engin bílbelti, það er ekki vinsælt meðal okkar fólks, en þykir ekki óeðlilegt íTælandi. Við ætlum aðeins að gista eina nótt i Chumphon því leiðin liggur til Koh Tao, eyju út af austur ströndinni sem hefur fallegar strendur, glæsileg resort hótel og flotta köfunar og snorkel staði, kayakleigur og fleira skemmtilegt. Við höfum pantað 3 nætur á flottum stað sem heitir Ko tao resort og er alveg við ströndina, strandbar sundlaug og sólbekki og flotta veitingastaði tvo. ( www.kotaoresort.com). Fyrir þrjár nætur á svona huggulegu hóteli gáfum við andvirði einnar nætur á hotel Loftleiðum þar sem er engin strönd, sól eða kayakleigur og köfun. Segjum þetta gott í bili og við biðjum að heilsa heim á klakann. Kv moskító bitinn Gunnar O. og ekki bitin Sólrún...

Friday, November 2, 2012

Hua Hin

Jæja, þá erum við loks komin á viðkunnulegan stað og mannsmergðin er ekki söm og i Bangkok.  Við ferðuðumst hingað suður eftir með lest á class 3 og engin loftkæling var til staðar, grjóthörð plastsæti og klósettið sem ég þorði ekki að líta inn á var fyrir aftan annað sætið okkar svo þegar allt þetta siðaða tælenska fólk fór og fullnægði þörfum sínum fengum við að njóta þess til fulls með þeim... Fnykurinn vsr svo þykkur og óbærilegur á köflum að það mátti éta hann með hníf og gafli.  það var ekki nóg, heldur fór starfsmaður tvisvar sinnum þarna inn með moppu og kom með hana ut blauta og ógeðsleða og skúraði beinlínis lestina upp úr skítnum, bravo Tæland, bravó.  inni í lestinni var 36 stiga hiti samkvæmt hitamælinum á úrinu mínu og sólin skein beint inn um gluggan og magnaði þannig upp þessa yndælis pest. Èg fekk far eftir bolinn á hendina, fyrstu ummerkin um sólina, því geislar hennar náðu ekki í gegnum þykku mengunina i Bangkok.  Eftir fjóra tíma og rumar 30 mínútur staðnæmdist lestin við Hua Hin railway, þvílíkur léttir, en bara við það að standa upp, ekki halda að það hafi verið frískandi að komast út, nei aldeilis ekki, bara 20 kíló á bakið og bakpoki framan a magann lika og gerðu svo vel vinur, finndu út hvar þú ert og finndu þér gistingu líka.  Við bókuðum 4 nætur á bar/hotel sem heitir Aussie bar beer o'clock og er þónokkuð huggulegt sé miðað við þá einu og hálfu stjörnu sem það gefur sér,  netið virkar fínt núna, loftkælingin er fullkomin og meira að segja svalir, nú og nóg af öl í lobbyinu, poolborð og dart og með því.  Èg er komin með 2 eða 3 bit á aðra rasskinnina og hef verið á moskito veiðum uppi í herbergi, hér er nefnilega margslungið dýralíf, nú rétt í þessu gekk framhjá mér köttur og fyrir aftan mig er lítil eðla á veggnum og maurar planta sér hvar sem er, takið eftir ég sit innií sófa við anddyrið.  

Ì dag fórum við Sólrún í mollið sem er gríðarlega flott og versluðum þar trimmer svo ég geti rakað mig og sóla keypti sér léttan kjól sem er góður i hitanum, gaasalega lekker þið vitið, og ég er víst sekur um að hafa hirt með mér tvennar stuttbuxur því eg hafði aðeins með mér einar sundbuxur út. Eftir þetta lá leiðin aftur heim og þaðan a kvöldmarkaðinn, það var mjög skemmtilegt að labba um, margt fallegt sem
þessir hrískallar búa til. Við fengum okkur að borða góðan thai mat og tókum svo Baht bus svokallaðan aftur heim, en það eru gamlir pallbílar sem notaðir eru til fólksflutninga og eru heldur skrautlegir, og ódýrir eftir því. Við fórum með gömlum Datsun sem hefur tvo bekki aftan á og fótstig aftast svo maður komist upp í þá, ég stóð aftast og hélt mér í þvi við vorum alls 23 talsins aftan í dollunni, sem var við það að gefast upp en allir eiga að fá að fljóta með, ef þessi gamli lúni Datzun hefði oltið eða keyrt harkalega inn í steyptan vegg, hefði hann eflaust verið dæmdur á líkum, mjög mörgum líkum, ef því er að skipta, banaslys þykir ekkert tiltökumál hér í Tælandi. À morgun höfum við hugsað okkur að leigja vespu til þess að ná almennilega til umferðarinnar og skoða það sem okkur lystir, nú ef það bregst þá vitum vér eigi. Hér sit ég í gamallri skítugri lest, og grjón hana fylla af djöfulsins pest, ég trúi því varla, ó hvað hefur gerst, um allt fjandans gólfið skíturinn berst. 
NEI ANDSKOTINN ÞAÐ ER KAKKALAKKI A GOLFINU, stór djöfull.

Wednesday, October 31, 2012

Bangkok

Bangkok, eða Bang a cock líkt og sumir kjósa að kalla þessa borg (þó ekki ég, ég hugsa ekki svona) er hrikalega fjölmenn og öngþvetið getur verið með öllu óþolandi og hvorki maður né mús ber virðingu fyrir einu eða neinu í umferðinni, ef þú hunskast ekki frá þegar bíll, strætò, tuktuk, vespa, mótorhjól eða hvað allir þessir ferðamátar kallast hérna koma æðandi að þér þá er bremsan það allra seinast sem viðkomandi dettur í hug að nota, fyrr en eftir að hann keyrir á þig og þá aðallega kannski til þess að athuga hvort það hafi verið strákur eða stelpa innfæddur eða erlendur, kynskiptingur(manneskja eftir leiðréttingu) eða ósköp venjuleg íslensk manneskja sem gleymdi sér aðeins við að hoppa yfir drullu og viðbjóð á götunni sem svimar einnig vegna mengunar. Þessi texti er ekki skrifaður með það í huga að gera áhyggjufullar mæður en áhyggjufyllri heldur vegna þess að þetta er hreinræktaður sannleikurinn. Jæja nóg af umferð og vitleysu. Við Sólrún röltum svolítið bæinn í dag og okkur þykir það ótrúlegt að allt þetta drasl sem verið er að selja hér á götum úti skuli virkilega nokkurtíma seljast,ég held það hafi verið sextán þúsund básar að selja eftirhermur af Rolex eða Björn Borg nærbuxunum sem ég þekki nú vel sjálfur. Þegarég hugsa til baka má segja að Bangkok sé eins og risavaxið Kolaport með Kentucky og McDonalds inn í milli. Hótelið okkar er notalegt hér niðri í sófanum sem ég sit í og skrifa þessa færslu en svo dregur aftur úr notalegheitunum eftir því sem nær dregur herbergið okkar, en sjónvarpið, netið, klosettið og sturtan virkar sem skildi ásamt brúsunni sem er ætluð því að skola á sér prívatið eftir losun, sæll eg er frá Islandi, hvernig dettur ykkur þetta í hug. Loftkælingin virkar en ekki hitastillirinn sem henni fylgir, svo tvisvar yfir nóttina þurfum við að vakna, þá ýmist til þess að kveikja á henni eða slökkva. Við höfum ákveðið að halda til Hua Hin í fyrramálið með lestinni, en það er lítill staður ( að minnsta kosti ef miðað er við Bang a Cock) viðströndina sunnanverða og þykir afar skemmtilegur áfangastaður ef marka má netmiðlana. Þar er að finna strendur með mjúkum tásukitlandi sandi og þá vonandi örlítilli hafgolu sem ber með sér ferskara loft en það sem við höfum andað að okkur frá lendingu. Segjum þetta gott og fylgist þið endilega með frekari ferðum okkar hér á blogginu, myndir fara aðallega inn á facebook eins og staðan er núna allavega því það er meira en að segja það að posta þeim herna inn og a fleiri síður, m.a. vegna þess að flash player hefur hætt viðskiptum við Android stýrikerfið, en allt sem við erum vön heima verður kiðfætt með stóra bumbu án þess. Þar til næst, Gunnar O.
Leo hjálpaði til við skriftirnar.

Sunday, October 28, 2012

Kongsins Kobenhavn

Jæja, þa er stori dagurinn runninn upp fyrir okkur og senn a enda. Við erum komin til Kaupmannahafnar og liggjum nu a rosa finu hoteli og ætlum að hvila okkur vel fyrir langsn dag framundan.  heill dagur her i borg og svo tekur við tæplega ellefu tima flug beint til Bangkok, frabært, gæti ekki verið betra, getur aðeins versnað.....  eins gott ad hlaða tækið vel svo madur hafi eitthvad að gera.  Endilega fylgist með okkur reglulega og takið þatt i þessu ævintyri okkar með okkur og upplifið annan hluta heimsins a nyjan hatt, beint i æð, ef við verðum dugleg að skrifa eitthvað fyrir ykkur að lesa þ.e.a.s.  God nat familie og venner,  Kobenhavn skal i seng.

Gunnar O.